Af hverju markhópagreining?

marketingTil þess að ná árangri á markaði þurfa fyrirtæki að þekkja þann markhóp sem þau vilja ná til og til þess er notuð svokölluð markhópagreining. Slík greining hefur það að markmiðið að gera markaðsstarf hnitmiðaðra ásamt því að hámarka nýtingu á því fé og þeim tíma sem notaður er til að ná til markhópsins.

Hefðbundna leiðin að markhópagreiningu er að skilgreina hópa lýðfræðilega, landfræðilega og eftir aldri, kyni, tekjum, menntunarstigi o.s.frv. Markmiðið er að komast að því hverjir eru móttæki­leg­astir fyrir vörum eða þjón­ustu fyrir­tæk­isins, hvað einkennir þann hóp, hvaða lífsstíl hefur hann og hvar og hvernig er hægt að ná til hans?

Markhópagreiningu er hægt að framkvæma á ýmsan hátt. T.a.m. er hægt að gera hana með því að kortleggja annars vegar vörur og þjónustu fyrirtækisins og hins vegar markhóp og para síðan saman hvaða vara eða þjónusta hentar hvaða tegund viðskiptavinar eða markhóps.

Hjá símenntunarmiðstöðvum má finna margskonar viðskiptavini með ýmsar þarfir og langanir og áskorun miðstöðvanna er að bjóða upp á vörur og þjónustu sem hentar hverjum og einum. Markhópagreining hjá Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar leiddi t.a.m. í ljós að markhópar eru útlendingar, stjórnendur fyrirtækja, fólk með litla formlega menntun, fatlaðir einstaklingar, fólk með námsörðuleika, menntað fólk og svo mætti lengi telja.

Eins og hjá öðrum fræðslustofnunum er nauðsynlegt að skilgreina og þekkja þarfir og langanir markhópanna og uppfylla þessar þarfir og langanir með hönnun, upplýsingamiðlun, verðlagningu og afhendingu á námi og þjónustu.

Markaðsfræðigúrúinn Peter Drucker hélt því fram að markmið markaðssetningar væri að þekkja og skilja viðskiptavini svo vel að varan eða þjónustan sem um ræðir selji sig sjálf.

Við sem erum í fullorðinsfræðslubransanum vitum að til þess að geta boðið upp á nám og þjónustu við hæfi hvers markhóps er mikilvægt að þekkja þarfir hans vel. En til þess að geta markaðssett nám og þjónustu til réttra aðila er jafnframt nauðsynlegt að skoða hvaða ávinning þjónustan eða námið getur veitt markhópnum og hvað skiptir hann máli, hvaða áhugamál hefur hann og hvaða gildi og lífsýn hefur hópurinn. Með því að svara þessu komumst við nær því að vita hvernig er best að tala til markhópsins og mynda tengsl við hann og mögulega einnig hvar og hvernig næst í markhópinn. Þannig komumst við nær því að námið eða þjónustan okkar ,,selji sig sjálf“.

Heimildir:

  • Peter F. Drucker 1999: Management. Oxford : Butterworth-Heinemann, 1999. 575 bls.
  • Philip Kotler, Karen F.A. Fox 1995: Strategic marketing for educational institutions: Englewood Cliffs, NJ : Prentice-Hall, 484 bls.
  • http://www.copyblogger.com/smallertarget/
  • www.thoranna.is – Markaðsmál á mannamáli

One thought on “Af hverju markhópagreining?”

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *