Markaðsmál hjá stofnunum sem ekki eru reknar í hagnaðarskyni (nonprofit)

20161106_204538Ég er að lesa bókina Successful Marketing Strategies for Noneprofit Organisation eftir Barry J. McLeish. Bókin er á leslista kúrs um markaðssmál fræðslustofnana sem ég er að taka við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Bókin er bandarísk að uppruna og athyglisvert er að í henni Ameríku eru stofnanir sem ekki eru reknar í hagnaðarskyni – svokallaðar nonprofit stofnanir – einn stærsti vinnuveitandinn. Annar hver fullorðinn einstaklingur vinnur sem sjálfboðaliði að meðaltali um fimm tíma á viku fyrir slíkar stofnanir. Þessar stofnanir sinna ýmsum samfélagslegum verkefnum s.s. í mennta-, heilsu-, menningar- og trúargeiranum.

Slíkar stofnanir eru oft á tíðum reknar fyrir fjáraflanir og í bókinni er einmitt fjallað um það hvernig nonprofit stofnanir þurfa að brjótast út úr þeim veruleika að markaðsstarf samræmist ekki góðgerðastarfssemi. Höfundur bendir á að allar stofnanir eru nú þegar í einhverskonar markaðsstarfi þrátt fyrir að fæstar þeirra hafi markaðsfulltrúa á sínum snærum. Hann bendir á að stofnanir þurfi í markaðsstarfi að skoða og spyrja áheyrendur sína hvernig þeir skilja og bregðast við því sem stofnunin miðlar til þeirra.

Í bókinni eru kynntar leiðir til þess að byggja upp markaðsstarf með því að greina ytri þætti frekar enn þá innri. Þetta þýðir að greina þarf óskir og þarfir umbjóðenda og stuðningsmanna viðkomandi stofnunar. Byggt er á rannsóknum frá ýmsum greinum og markaðsmódel frá ,,for-profit“ eða rekstur í hagkvæmisskyni eru aðlagaðar að nonprofit stofnunum.

Mér finnst áhugavert að pæla í því hverjar sambærilegar stofnanir eru hér á Íslandi. Mér dettur í hug íþróttafélög, kvenfélög, alskyns klúbbar, björgunarsveitirnar o.s.frv. Ætli þessir aðilar hafi gert markaðsáætlanir?

Símenntunarmiðstöðvar eru auk þess sannarlega noneprofit stofnanir þar sem þeirra markmið er ekki gróði heldur eingöngu að standa undir rekstrarkostnaði. Þær fá framlag frá ríkinu sem er aðeins lítið brot af rekstrarkostnaði þeirra. Önnur fjárframlög eru fengin með umsóknum um styrki og með því að selja námskeið og fræðslu. Í næstu verkefnum í kúrsinum mun ég skoða betur hvernig markaðsstarf er unnið í símenntunarmiðstöðvum og þá verður gott að kíkja betur í bókina góðu.

2 thoughts on “Markaðsmál hjá stofnunum sem ekki eru reknar í hagnaðarskyni (nonprofit)”

  1. Áhugavert. Gaman væri að vita hver hlutföllin eru á Íslandi. Ég yrði ekki hissa þótt hlutfall þeirra sem vinna fyrir nonprofit stofnanir væri enn hærri hér á landi þótt ekki sé um sjálfboðastarf að ræða. Mjög stór hluti vinnustaða hérlendis er nonprofit þótt þeir séu reknir á fjárframlögum frá ríkinu. En það væri reyndar líka gaman að vita hlutfall þeirra sem vinna sjálfboðavinnu í þágu nonprofit stofnana hérlendis.

  2. … og svo er það þetta með að góðgerðarstofnanir og menntastofnanir stundi eða stundi ekki markaðsstarf. Vissulega snérist orðræðan, í kring um það sem í dag er kallað markaðsstarf, lengi vel fyrst og fremst um að koma vöru á markað, sannfæra fólk um að kaupa tiltekna vöru. EN allar stofnanir sem vinna með fólki og fyrir fólk þurfa að skipuleggja þjónustu sína þannig að það geti og vilji nota hana. Það er t.d. hluti af markaðsstarfi safns að ákveða opnunartíma. Opnunartímar hafa áhrif á það hvenær fólk getur komið og notið safngripanna. Vinnandi fólk kemst varla nema um helgar. Er safnið að sinna bæjarbúum almennilega ef það er aðeins opið þegar fæstir komast?
    Þetta er spurning um markaðssetningu, sömuleiðis hvernig nám fyrir tiltekna markhópa er skipulagt. Spurningar eins og Hvar fer námið fram? Hvenær er hittist fólk? Þær tilheyra markaðssetningunni. En við erum enn að glíma við að þessi iðja inniheldur hugtakið „markaður“ og sums staðar er eins og það sé skítugt!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *